Elín og Þórólfur sigruðu í Miðnæturhlaupinu

21. júní 2019

Miðnæturhlaup Suzuki 2019 fór fram í gærkvöldi í frábæru hlaupaveðri. Skráðir voru 3015 hlauparar sem er nýtt þátttökumetmet. Um 1200 erlendir hlauparar voru á meðal þátttakenda frá 57 löndum.

Í 10 km hlaupinu sem gildir til stiga í stigakeppni Powerade Sumarhlaupanna sigruðu þau Þórólfur Ingi Þórsson og Elín Edda Sigurðardóttir. Eitt brautarmet var sett í hlaupinu en það var Andrea Kolbeinsdóttir sem setti það í 5 km hlaupi kvenna.

Verðlaunahafar kvöldsins voru eftirfarandi:

Hálft maraþon karlar

1. Arnar Pétursson, ISL, 01:10:20
2. Alex MM Russeau, USA, 1:11:56
3. Adrian Graczyk, POL, 1:16:54

Þetta er annað árið í röð sem Arnar sigrar í hálfmaraþoni karla í Miðnæturhlaupi Suzuki og var tíminn hans í kvöld 5.besti tíminn sem náðst hefur í hlaupinu. Arnar náði forystu í hlaupinu strax í upphafi og hélt henni til loka.

Hálft maraþon konur

1. Marissa Saenger, USA, 1:29:14
2. Michelle Hazelton, USA, 1:29:15
3. Íris Dóra Snorradóttir, ISL, 01:31:17 

Þær Marissa og Michelle tóku æsispennandi endasprett þar sem Marissa kom sjónarmun á undan í mark. Tímar þeirra eru 7. og 8. bestu tímarnir sem náðst hafa í hálfmaraþoni kvenna í Miðnæturhlaupi Suzuki.

10 km hlaup karla

1. Þórólfur Ingi Þórsson, ISL, 33:29
2. Rimvydas Alminas, LTU, 33:54
3. Björn Snær Atlason, ISL, 37:09 

Tími Þórólfs er fjórði besti tíminn sem náðst hefur í 10 km hlaupi karla í Miðnæturhlaupi Suzuki.

10 km hlaup kvenna

1. Elín Edda Sigurðardóttir, ISL, 36:50
2. Arndís Ýr Hafþórsdóttir, ISL, 38:00
3. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, ISL, 38:21 

Þetta er þriðja árið í röð sem Elín Edda sigrar í 10 km hlaupinu. Í fyrra setti hún nýtt brautarmet sem er 36:19 og var ekki langt frá því í dag þegar hún kláraði hlaupið á 36:50 sem er annar besti tíminn sem náðst hefur í 10 km hlaupi kvenna.

5 km hlaup karla

1. Vilhjálmur Þór Svansson, ISL, 16:00
2. Hlynur Ólason, ISL, 16:07
3. Maxime Sauvageon, FRA, 16:32 

Vilhjálmur var í 2.sæti í 5 km hlaupinu í fyrra á 16:28 en náði nú sigri og bætti tímann sinn um 28 sekúndur. Tími Vilhjálms er 5.besti tíminn sem náðst hefur í 5 km hlaupi karla.

5 km hlaup kvenna

1. Andrea Kolbeinsdóttir, ISL, 17:34
2. Helga Guðný Elíasdóttir, ISL, 19:24
3. Eva Skarpaas, ISL, 20:34 

Andrea setti nýtt og glæsilegt brautarmet í 5 km hlaupinu en gamla metið var 18:00 og setti Guðlaug Edda Hannesdóttir það árið 2016.  

Heildarúrslit hlaupsins má finna á midnaeturhlaup.is.

Hlauparar í Elliðaárdalnum

Elliðaárdalurinn skartaði sínu fegursta í hlaupinu í gærkvöldi og náði Ólafur Þórisson þessari frábæru mynd af hlaupurum í kvöldsólinni.

Styrktaraðilar